Jóhanna leiðir ljósagöngu á miðvikudag

Friðarsúlan í Viðey.
Friðarsúlan í Viðey. mbl.is/RAX

Ljósaganga verður farin frá Þjóðmenningarhúsinu klukkan sjö á miðvikudagskvöldið að sólfarinu við Sæbraut. Þar verður fylgst með þegar tendrað verður á Friðarsúlu Yoko Ono klukkan kortér fyrir átta. Slökkt verður á henni skömmu áður til að vekja á táknrænan hátt athygli á kynbundnu ofbeldi gegn konum.

Miðvikudagurinn markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundu ofbeldi undir yfirskriftinni: Leggðu þitt af mörkum – Farðu fram á aðgerðir:  Saman getum við bundið enda á ofbeldi gegn konum! Miðvikudagurinn er jafnframt alþjóðadagur Sameinuðu þjóðanna um afnám ofbeldis gegn konum.

Í fararbroddi verða  kyndilberar sem láta sig málefnið varða, m.a. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, Halldóra Geirharðsdóttir, leikkona, Jón Páll Eyjólfsson, leikskáld og Þórdís Elva Þorvaldsdóttir Bachmann, höfundur bókarinnar Ofbeldi á Íslandi á mannamáli.

Í tilkynningu frá Mannréttindaskrifstofunni segir að kynbundið ofbeldi gegn konum og stúlkum sé útbreiddasta ofbeldi á heimsvísu.

„Kynfæralimlesting, kynferðisofbeldi, „heiðursmorð“ og ofbeldi á heimilum eru meðal þess sem milljónir kvenna um allan heim verða fyrir dag hvern. Enda þótt staða íslenskra kvenna sé sterk á mörgum sviðum þá er kynbundið ofbeldi alvarlegt vandamál hér á landi. Árið 2008 leituðu 547 einstaklingar til Stígamóta en frá upphafi samtakanna til ársloka 2008 hafa alls 5,279 manns leitað þar aðstoðar. 530 konur hafa leitað til Kvennaathvarfs á árinu 2009 komur til samtakanna eru frá upphafi um 5800."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert