Líðan mannsins sem slasaðist í fyrrinótt þegar hann féll ofan í húsgrunn og lenti á steypustyrktarjárnum er óbreytt. Að sögn læknis á gjörgæsludeild Landspítalans er manninum haldið sofandi í öndunarvél á gjörgæsludeild.
Hinn slasaði var fluttur á Landspítalann þar sem hann gekkst undir viðamikla aðgerð.
Eins og fram hefur komið í fréttum mbl.is, féll maðurinn ofan í grunn sumarbústaðar við Efra Langholt í Hrunamannahreppi um klukkan tvö í nótt. Lenti hann á steypustyrktarjárni og stungust sjö slík í líkama hans. Hann var fluttur með þyrlu til Reykjavíkur í nótt en bæði lögregla og björgunarsveitarmenn aðstoðuðu við að losa hann og koma honum í þyrluna.