Fimm sækja um embætti landlæknis. Þau eru læknarnir Finnbogi O. Karlsson, Geir Gunnlaugsson, Kristján Oddsson, María Heimisdóttir og
Ragnar Jónsson. Heilbrigðisráðherra skipar landlækni til fimm ára í senn að fengnu mati nefndar sem metur hæfni umsækjenda.
Í auglýsingu um starfið er krafist sérfræðimenntunar í læknisfræði og víðtækrar reynslu eða menntun á sviði stjórnunar. Sérstök matsnefnd fær nú umsóknirnar til umfjöllunar. Hún skilar heilbrigðisráðherra áliti sínu á umsækjendum og þá fyrst getur ráðherra tekið ákvörðun um hver verðru næsti landlæknir.
Skipað er í stöðu landlæknis til fimm ára frá 1. janúar 2010. Umsækjendur eru
Finnbogi O. Karlsson, læknir. Hann rekur lækningastofu í efnaskipta- og innkirtlalækningum í Arkansas í Bandaríkjunum.
Geir Gunnlaugsson, læknir. Hann er prófessor við Kennslufræði- og lýðheilsudeild Háskólans í Reykjavík.
Kristján Oddsson, læknir. Hann er aðstoðarlandlæknir.
María Heimisdóttir, læknir. Hún er yfirlæknir á hag- og upplýsingasviði Landspítala.
Ragnar Jónsson, læknir. Hann er sjálfstætt starfandi bæklunarskurðlæknir á eigin læknastofu.
Embættið er undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra og er markmið með starfrækslu þess að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að heilbrigði landsmanna. Landlæknir ber ábyrgð á því að embættið starfi í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
Í frétt frá heilbrigðisráðuneytinu segir að hlutverk landlæknis sé m.a. eftirfarandi:
Að veita ráðherra og öðrum stjórnvöldum, heilbrigðisstarfsfólki og almenningi ráðgjöf um heilbrigðismál.
Að hafa eftirlit með heilbrigðisþjónustu.
Að hafa eftirlit með heilbrigðisstarfsmönnum.
Að hafa eftirlit með lyfjaávísunum og fylgjast með og stuðla að skynsamlegri lyfjanotkun landsmanna.
Að veita starfsleyfi til einstaklinga sem uppfylla skilyrði laga og reglugerða til notkunar starfsheita löggiltra heilbrigðisstétta.
Að safna og vinna upplýsingar um heilsufar og heilbrigðisþjónustu.
Að fylgjast með heilbrigði landsmanna.
Að vinna að gæðaþróun innan heilbrigðisþjónustu.
Að sinna kvörtunum almennings vegna heilbrigðisþjónustu.
Að stuðla að því að menntun heilbrigðisstarfsmanna sé í samræmi við kröfur heilbrigðisþjónustunnar á hverjum tíma.
Að stuðla að rannsóknum á sviði heilbrigðisþjónustu.
Að sinna öðrum verkefnum sem honum eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.
Fram kom í auglýsingu um starfið að skipulag og verkaskipting stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins væri til endurskoðunar, m.a. í þeim tilgangi að efla eftirlit með gæðum heilbrigðisþjónustu og styrkja forvarnir og er sagt að endurskoðunin kunni að leiða til breytinga á starfsemi embættisins.