Segir sig frá meirihlutanum

Friðrik Sigurðsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi.
Friðrik Sigurðsson sveitarstjórnarmaður í Norðurþingi. Hafþór Hreiðarsson

Friðrik Sig­urðsson sveit­ar­stjórn­ar­maður í Norðurþingi hef­ur ákveðið að segja skilið við meiri­hlut­ann í sveit­ar­stjórn­inni. Friðrik seg­ir ákvörðun sína stafa af óánægju með af­stöðu odd­vita meiri­hluta­flokk­anna til sölu á raf­orku­dreifi­kerfi Orku­veitu Húsa­vík­ur.

„Þetta er búið að eiga sér aðdrag­anda. Kornið sem fyllti mæl­inn var afstaða manna til sölu á raf­dreifi­kerfi í sveit­ar­fé­lag­inu. Einnig sú ólýðræðis­lega aðferðafræði sem hef­ur verið viðhöfð við það mál,“ sagði Friðrik. 

Hann sagði að ekki sé búið að af­greiða sölu raf­dreifi­kerf­is­ins í sveit­ar­stjórn­inni. Odd­vit­ar meiri­hlutal­ist­anna hafi haldið hlut­hafa­fund í Orku­veitu Húsa­vík­ur og samþykkt söl­una þar, án samþykk­is sveit­ar­stjórn­ar. 

Friðrik var kjör­inn í sveit­ar­stjórn fyr­ir D-lista sem fékk þrjá full­trúa og myndaði meiri­hluta með B-lista sem einnig fékk þrjá full­trúa. Í minni­hluta eru S-listi með tvo full­trúa og V-listi með einn full­trúa. Meiri­hlut­inn held­ur því þrátt fyr­ir að Friðrik gangi úr hon­um.

Friðrik kvaðst ætla að sitja áfram í sveit­ar­stjórn­inni út kjör­tíma­bilið. Hann sagði að tím­inn myndi leiða í ljós hvernig hann muni verja at­kvæði sínu. „Ég mun klár­lega greiða at­kvæði gegn þess­ari ákvörðun með raf­orku­dreifi­kerfið,“ sagði Friðrik.

Hann seg­ir að gríðarlega mik­il óánægja sé í sveit­ar­fé­lag­inu með fyr­ir­hugaða sölu á raf­dreifi­kerfi Orku­veitu Húsa­vík­ur.

Vænt­an­lega verður sveit­ar­stjórn­ar­fund­ur í þess­ari viku eða næstu viku.  Friðrik tók ákvörðun um að skilja sig frá meiri­hlut­an­um í gær. Hann hef­ur því ekki til­kynnt hana á sveit­ar­stjórn­ar­fundi en látið fé­laga sína á D-lista.

Friðrik er formaður skipu­lags- og bygg­ing­ar­nefnd­ar og einnig formaður æsku­lýðsnefnd­ar í Norðurþingi. Hann kvaðst ekki ætla að eiga frum­kvæði að því að láta af for­mennsku í nefnd­un­um. „Þetta eru starfs­nefnd­ir sem ég treysti mér al­veg til að sinna fyr­ir íbú­ana,“ sagði Friðrik.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert