Víða hálka og snjór á vegum

Víða er vetrarfærð á vegum.
Víða er vetrarfærð á vegum. Rax / Ragnar Axelsson

Á Vestfjörðum er víða hálka, hálkublettir og éljagangur. Snjóþekja er á Þröskuldum, Steingrímsfjarðarheiði og um Klettsháls, mokstur stendur yfir. Á Norður- og Austurlandi er víða hálka, hálkublettir, snjóþekja og éljagangur.

Hálka og éljagangur er á Þverárfjalli og Vatnsskarði. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Snjóþekja og éljagangur er með ströndinni. Hálka og éljagangur er á Mývatnsheiði, Mývatns- og Möðrudalsöræfum. Hellisheiði eystri er ófær.

Hálka og skafrenningur er á Fjarðarheiði og í Fagradal. Snjóþekja er í Oddskarði. Þungfært er um Breiðdalsheiði. Fólk er beðið hafa vara á sér gagnvart hreindýrum sem kunna að vera á vegum austanlands.

Vegagerðin vekur athygli á því að Hófaskarðsleið, nýi vegurinn um Melrakkasléttu, er lokuð allri umferð.  Vegurinn er í byggingu, með grófu yfirborði og án vetrarþjónustu. Talsvert er um að vegfarendur hafi farið þessa leið  á eigin ábyrgð, en nú hefur snjóað á svæðinu og Hófaskarðið er orðið þungfært.

Umferð er nú beint um stutta hjáleið fram hjá vinnusvæði við Grundarhverfi  á Kjalarnesi, þar sem verið er að byggja
undirgöng undir Vesturlandsveg. Aðkoma að Klébergsskóla er um Brautarholtsveg og Vallargrund. -  Búist er við að nota þurfi hjáleiðina fram að jólum.

Vegfarendur eru beðnir velvirðingar á óþægindum vegna þessa en ökumenn eru sérstaklega beðnir að virða hámarkshraða.

Verið er að breyta tvennum gatnamótum við Kringlumýrarbraut. Það eru annars vegar gatnamótin við Suðurlandsbraut og Laugaveg. Þar styttist í verklok. Hins vegar eru gatnamótin við Borgartún en þar eru verklok áætluð í byrjun desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert