Indriði H. Þorláksson, aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, segir að ekkert sé hæft í forsíðufrétt Morgunblaðsins þar sem vísað er til álitsgerðar Daniels Gros, fulltrúa Framsóknarflokksins í stjórn Seðlabanka Íslands, að hægt væri að spara Íslendingum 185 milljarða króna með beitingu jafnræðisreglu.
Í frétt Morgunblaðsins kemur fram að Gros varpi fram þeirri spurningu hvort Bretum og Hollendingum beri að veita Íslendingum sömu lánskjör og eigin tryggingarsjóðum, í samræmi við jafnræðisreglu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.
Að sögn Indriða er erfitt að átta sig á því hvað Gros eigi við í fréttinni þar sem ekkert sé tilgreint í fréttinni um hvaða jafnræðisreglu sé að ræða. Ekki sé til nein allsherjarjafnræðisregla. „Þær reglur sem gilda innan EES eru fyrst og fremst varðandi samkeppnisstöðu og ég efa nú að menn líti svo á að tryggingasjóðir innistæðueigenda í mismunandi löndum séu í samkeppni hver við annan," segir Indriði. Til sé fjöldinn allur af jafnræðisreglum en þær lúti fyrst og fremst að jafnræði í samkeppni.
Hann segir margt í fréttinni ekki standast. Til að mynda fyrirsögnin: Gæti sparað Íslendingum 185 milljarða. Þetta sé um það bil sú fjárhæð sem líklegt sé að standi eftir þegar kemur að því að greiða. Ef hún eigi öll að sparast þá sé mjög líklegt að menn séu að rugla saman breytilegum vöxtum og föstu vöxtunum sem margsinnis sé búið að sýna fram á að séu hagstæðari.
Í frétt Morgunblaðsins segir að því vakni spurningin hvaða lánskjör sjóðirnir fái hjá ríkisstjórnum Breta og Hollendinga. Svarið fyrir Bretland sé að sjóðurinn fái lán á LIBOR-vöxtum, að viðbættum 30 grunnpunktum, sem þýðir 1,5% um þessar mundir. Þetta sé fjórum prósentustigum undir lánskjörum Íslendinga, sem eru 5,55%. Þetta samsvari um 100 milljónum evra á ári, eða samanlagt yfir 1 milljarði evra á lánstímanum með uppsöfnuðum vöxtum.
Indriði segir að sýnt hafi verið fram á að þessir breytilegu vextir jafngildi 6-7% vöxtum til 15 ára sem sé talsvert meira heldur en dæmið í fréttinni og því spyrji hann sig að því hvað búi að baki fréttinni.
Hann segir að þegar vitnað sé í það hvernig Bretar og Hollendingar fjármagna sína sjóði þá séu þeir að viðurkenna ábyrgð ríkisins á innistæðutryggingunum og þar með að leggja þessum sjóðum til fé þannig að samskipti milli ríkiskassans og þessara sjóða sé nánast bókhaldsatriði. Ríkið, í þessu tilviki það breska og hollenska, sé að lána sínum eigin sjóðum og því ekki um viðskipti á markaði að ræða.