Skera á niður fæðingarorlofsgreiðslur til að spara hátt í tvo milljarða króna, samkvæmt nýju frumvarpi, sem fjallað var um á ríkisstjórnarfundi í dag. Fram kom í fréttum Ríkisútvarpsins, að verði frumvarpið að lögum lækka hámarksgreiðslur til nýbakaðra foreldra.
Samkvæmt frumvarpi félagsmálaráðherra lækka hámarksgreiðslur úr 350 þúsund krónum í 300 þúsund krónur, að sögn Ríkisútvarpsins. Foreldrar, sem hafa meira en 200 þúsund krónur í mánaðarlaun, fá 75% af tekjum sínum frá ríkinu meðan á fæðingarorlofi stendur í stað 80%. Fæðingarorlof verður áfram níu mánuðir og skiptist á milli foreldra.