Braut gegn stúlku fyrir 14 árum

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmd karlmann í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn 12 ára gamalli stúlku.

Rúm 14 ár voru voru liðin frá brotinu þegar stúlkan kærði það. Maðurinn, sem var 18 og 19 ára þegar þetta gerðist, er nú orðinn fjölskyldumaður. Eru þetta m.a. ástæður fyrir því að refsingin var skilorðsbundin. Maðurinn var einnig dæmdur til að greiða konunni 800 þúsund krónur í bætur.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa haft samfarir við stúlkuna í eitt skipti árið 1994 og í allt að 10 skipti árið 1995. Þá var hann ákærður fyrir að hafa haft við hana munnmök. Maðurinn viðurkenndi að hafa haft samfarir við stúlkuna nokkrum sinnum árið 1995 en hann var fundinn sekur um öll ákæruatriðin.

Héraðsdómur taldi ekki, að brot mannsins væru fyrnd. Þá hafi honum verið fullljóst um aldur stúlkunnar. Hafi maðurinn brotið gróflega gegn kynfrelsi stúlkunnar og barnslegu sakleysi, enda verði að telja að nítján ára gamall maður hafi mikla yfirburði gagnvart tólf og þrettán ára barni. „Eru ákvæði hegningarlaga um aldursmörk samræðis milli fólks sett í þeim tilgangi að verja ung börn og unglinga gegn slíkri háttsemi þar sem þau, sökum æsku, hafa ekki þroska til að taka ábyrgð á sjálfum sér né öðrum hvað þetta varðar," segir í dómnum.

Fram kemur einnig, að stúlkan hafi  átt við langvarandi geðræn vandamál að stríða og verið fyrst lögð inn á geðdeild í nóvember 2001, þá nítján ára gömul. Ekki hafi verið sýnt fram á það fyrir dóminum að öll þau geðrænu vandamál, sem stúlkan hafi þurft að kljást við, stafi eingöngu af þeirri kynferðislegu misnotkun sem hún var beitt, enda lýsti hún því svo sjálf fyrir dóminum að hún væri ekki viss um að svo væri eingöngu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka