Framseljanlegar veiðiheimildir og bann við brottkasti gætu látið fiskveiðistefnu Evrópusambandsins virka betur, að sögn Halldórs Ásgrímssonar, framkvæmdastjóra norrænu ráðherranefndarinnar, í grein sem hann skrifar í evrópska fjölmiðla í dag. Þar segir hann fiskveiðikerfi ESB vera algerlega misheppnað.
Halldór segir í greininni að norræn fiskveiðikerfi geti verið fyrirmynd að endurbótum á því evrópska.
„Framkvæmdastjórnin hefur þá framtíðarsýn af fiskveiðistefnunni árið 2020, að þá standi sjávarútvegurinn undir sér efnahagslega, stórfelld ofveiði verði hluti af fortíðinni, fiskistofnar hafi verið endurreistir og að fiskveiðistjórnunarkerfið verði ódýrara og auðveldara í meðförum,” skrifar Halldór, í þýðingu blaðamanns.
„Norðurlöndin deila þessari framtíðarsýn með henni og vilja hjálpa til við að gera hana að raunveruleika. Hins vegar er þessi sýn langan veg frá raunveruleikanum eins og hann er í Evrópu í dag, sem einkennist af ofveiðum, efnahagslegum óstöðugleika, of stórum flota, gríðarlegum opinberum styrkjum og minnkandi afla,” bætir Halldór við.
Hann segir að norræna ráðherraráðið hafi tekið boði um að gera tillögur að úrbótum á fiskveiðistefnu ESB. Ráðherraráð ESB birti einnig bráðlega rannsókn á norrænu kerfunum.
Hann segir að stefna ESB gæti helst gagnast á því að taka þrennt upp frá Norðurlöndunum. Í fyrsta lagi leggur hann til bann við brottkasti, stefnu sem verði til þess að öllum afla sé landað.
Í öðru lagi að kerfið byggist á því að ákveðnum réttindum sé úthlutað til útgerðarfyrirtækja. Svo sem réttinum til að veiða ákveðið heildarmagn af fiski og réttinum til að veiða áákveðnum svæðum. ,,Réttindi sem tengjast útgerðarfyrirtækjunum geta haft jákvæð áhrif á þróun flotans, afkomu fiskistofnanna og arðsemi iðnaðarins,” segir Halldór í greininni.
Í þriðja lagi segir Halldór að samvinna sé mikilvæg, þ.e. að útgerðarmenn taki þátt í ákvarðanatökuferlinu. Sem dæmi nefnir hann þátttöku sambands norskra útgerðarmanna í því að gera tillögur um útdeilingu veiðiheimilda.
Einnig segir hann að styrkir til útgerða séu útbreitt vandamál, sem stuðli að ofveiðum og offjárfestingu í greininni. Þá segir hann að ákvarðanataka megi ekki vera í Brussel, heldur á lægra stigi stjórnsýslunnar og nær viðkomandi svæðum, þar sem meiri meðvitund er um aðstæður á hverjum stað.