Fimm kennurum hefur verið sagt upp störfum við Fjölbrautaskóla Norðurlands (FNV) vestra frá og með áramótum, samkvæmt frétt fréttavefjarins Feykis. Þar segir og að nú séu 167 íbúar á Norðurlandi vestra að hluta til eða alveg án atvinnu.
Auk kennaranna við FNV mun einhverjum einnig hafa verið sagt upp úr litlum stöðugildum við Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki. Feykir segir að á starfatorgi Vinnumálastofnunar sé aðeins auglýst eitt starf á svæðinu. Þar er um að ræða tímabundið starf við gerð gæðahandbókar fyrir UMF Tindastól. Starfið hefur verið auglýst laust síðan snemma á árinu án þess að tekist hafi að ráða í það.