Viðskiptaráðherra segist að efninu til sammála bankastjóra Arion banka sem sendi nýverið starfsmönnum bréf þar sem fram kom að nýti þeir sér greiðsluaðlögun vegna fjárhagserfiðleika kemur til flutnings í starfi eða uppsagnar. Ráðherra telur fólk í þröngri stöðu líklegra til að falla í freistni.
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, tók fram eftir ríkisstjórnarfund í morgun að hann hefði ekki séð téð bréf. Hann sagði þó að fjárhagur þeirra sem fara með mikla fjármuni, hvort sem er í bankakerfinu eða annars staðar, verði að vera traustur. Sé svo ekki skapast hætta á að þeir í einhverjum tilvikum freistist til að seilast í það mikla fé sem þeir hafi undir höndum.
Gylfi sagði ráðstöfun Arion banka eðlilega enda hafi alltaf verið reglur um að þeir sem orðið hafa gjaldþrota geti ekki gegnt ákveðnum trúnaðarstörfum um tíma. Ráðstöfunin sé í þeim anda.
Hann sagði eðlilegt að fólk í bankakerfinu nýti sér þau úrræði sem eru fyrir hendi ef það þarf á því að halda. „En ég tel að það sé ekki rétt að fólk sem er í greiðsluaðlögun eða hefur nýverið orðið gjaldþrota gegni trúnaðarstörfum þar sem það er að sýsla með mjög mikið af annarra manna fé. Ef fólk er í mjög þröngri stöðu er líklegra að það falli í freistni.“