Hefur efasemdir um útreikninga Gros

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Jón Pétur

Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag, að spurningar vöknuðu um hvort það borgi sig að hafa hagfræðinginn Daniel Gros í bankaráði Seðlabankans. Hann segist hafa efasemdir um útreikninga hans og þykir ekki mikið til álits Gros koma.

Tryggvi Þór Herbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði fjármálaráðherra hvort það kæmi til greina að taka upp ný álitamál sem koma fram í álitsgerð Gros við Breta og Hollendinga. Í álitinu segir m.a. að ef jafnræðisregla EES-samningsins gilti þyrfti íslenska ríkið að greiða Bretum 185 milljörðum króna minna í vexti af Icesave-láninu.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði ekki mikið að sækja í álitið. Ákaflega óljóst sé hvaða jafnræðisreglu verið sé að vísa í og starfsmenn fjármálaráðuneytis hafi ekki fundið því stað hvernig beita skuli slíkri reglu í þessu máli. Ekki sé nein altæk jafnræðisregla til.

Þá sagði Steingrímur að Gros hafi sent frá sér tvær greinar á stuttum tíma og í þeim hafi skeikað milljónum á útreikningum hans. Hann varpaði í kjölfarið upp þeirri spurningu hvort það borgaði sig yfirleitt að hafa Gros í bankaráði Seðlabankans, þar sem hann situr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert