Karl Axelsson, lögmaður Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, ritar Ólafi Haukssyni, sérstökum saksóknara, opið bréf í Morgunblaðinu í dag. Þar segir Karl að ástæðan fyrir þessum skrifum sé sú að honum sé algjörlega ofboðið.
„Að minnsta kosti þekki ég ekki annað dæmi um sambærilegt framferði opinberra embætta gegn einstaklingi. Þannig hefur umbjóðandi minn hrakist úr starfi, hann hefur stöðu grunaðs manns í endurupptekinni rannsókn máls sem honum var sérstaklega tilkynnt í maí síðastliðnum að væri lokið án þess að nokkuð tilefni væri til þess að hafast frekar að gagnvart honum og þessu til viðbótar hefur hann þurft að sæta kyrrsetningu eigna sinna með einstökum og niðurlægjandi hætti og án þess að þörf slíks hafi verið rökstudd einu orði efnislega.
Síðast en ekki síst skal þess þó getið að mál Baldurs hefur fyrir tilverknað einhverra sem til þess þekkja, sýnilega bæði hjá embætti þínu og Fjármálaeftirliti, orðið fjölmiðlamál. Sá ítrekaði leki hefur svo alltaf átt sér stað á þeim tímapunktum þegar það hentaði ímyndarherferð viðkomandi embætta best en Baldri verst. Þarna eru einhvers staðar á ferðinni brot gegn ákvæðum laga um þagnarskyldu opinberra starfsmanna.
Ég geri ekki ráð fyrir að þú hafir áhuga á að stofna til opinberrar rannsóknar af því tilefni, þó að heimatökin við þá rannsókn gætu sjálfsagt verið hæg. Þegar svona mál verður umfjöllunarefni í fjölmiðlum er það yfirleitt afar meiðandi fyrir þann einstakling sem í hlut á.
Það stafar fyrst og fremst af því að frásögn af málsatvikum verður afar yfirborðsleg í fjölmiðlunum. Þar er sjaldnast athugaður grundvöllur rannsóknar eða hugsanlegur annarlegur tilgangur hennar. Þar er látið við fyrirsagnirnar sitja. Almenningur telur svo að hér hljóti eitthvað að vera athugavert fyrst svona virðuleg opinber embætti hafi ákveðið að stofna til rannsóknar. Og ekki bara stofna til rannsóknar í þessu tilviki, heldur líka sýna hversu embættið er dugmikið og harðsnúið með því að kyrrsetja eignir hjá fyrrverandi embættismanninum til tryggingar kröfu vegna brots hans. Og fyrst málið er komið í þennan farveg fyrir tilverknað embættanna felst í því sérstök réttlæting fyrir því að bréf þetta, sem hefur inni að halda rökstuddar athugasemdir við vinnubrögð ykkar, birtist einnig opinberlega," að því er segir í opnu bréfi Karls sem birt er í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.