Fjármálaráðherra sagði á Alþingi í dag misskilning að lesa annað úr orðum forsætisráðherra um Suðvesturlínur en að ástunduð verði fagleg stjórnsýsla. Hann segir annað ekki standa til en að farið verði eftir lögum um umhverfismat.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði hvort yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um að rutt verði úr vegi hindrunum vegna Suðvesturlína hefðu verið ákveðnar í samráði forystumanna ríkisstjórnarflokkanna.
Jóhanna sagði á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina að hindrunum verði rutt úr vegi vegna lagningar Suðvesturlínu og að framkvæmdir í Helguvík geti hafist í vor.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði ríkisstjórnarsamstarfið gott og ekki síst samband þeirra Jóhönnu. Hins vegar semdu þau ekki ræður hvors annars. Þá sagði hann ekki lesið rétt í orð forsætisráðherra og farið verði að lögum og reglum í þessu máli sem öðrum.