Ósátt við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Júlíus

Fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði Reykjavíkurborgar, Drífa Snædal, getur ekki fallist á þær forsendur sem gefnar hafa verið við gerð fjárhagsáætlunar Reykjavíkurborgar fyrir árið 2010. Ber þar hæst óbreytt útsvarsprósenta þrátt fyrir aukinn rekstrarkostnað og minni tekjur borgarinnar.

„Tilgangur útsvars er að fjármagna sameiginlegan rekstur borgarbúa og því eðlilegt að þegar harðnar í ári dreifist kostnaðurinn með sanngjörnum hætti á borgarbúa. Fullnýtt útsvarsprósenta gæti skapað borginni 630 miljónir króna í tekjur árið 2010. Niðurskurðurinn er því enn meiri en nauðsyn krefur að mati Vinstri grænna," að því er segir í tilkynningu frá VG.

Segir í tilkynningu frá VG að lagt sé til að fjárhagsaðstoð verði hækkuð að lámarki um 18.000 krónur á mánuði og heimildagreiðslur í hlutfalli við það.
Að hugmyndum um skilyrðingu fjárhagsaðstoðar verði ýtt út af borðinu.
Að fundinn verði staður fyrir þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða út frá þörfum þeirra sem þangað sækja en ekki farið í vanhugsaða flutninga sem gætu reynst dýrari þegar upp er staðið. Að fallið verði frá hugmyndum um einkarekstur og útvistun þjónustuþátta þar sem engin ástæða er til að ætla að aðrir en borgin geti rekið þjónustu á hagkvæmari hátt með sama þjónustustigi.

Að endurskoðun samninga verði ekki til þess að skerða nauðsynlega þjónustu sem sjúklingasamtök og önnur félög hafa sinnt í umboði borgarinnar.
Að barnaverndarnefnd hafi möguleika á að sinna auknu álagi og veita börnum borgarinnar þá þjónustu sem lögbundin er, samkvæmt tilkynningu frá VG.

„Þau sjónarmið sem hér koma fram eru ekki tæmandi listi yfir athugasemdir Vinstri grænna við frumvarp að fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2010 og áskilja fulltrúar flokksins sér rétt til að koma með breytingartillögur á forgangsröðun velferðarmála á seinni stigum fjárhagsáætlunarvinnunnar.

Fulltrúi Vinstri grænna í Velferðarráði sér ekki hagræðinguna af því að útvista þjónustu á vegum borgarinnar enda liggur ekki fyrir hvernig hún hefur áhrif á þá sem þjónustuna þiggur, starfsfólk viðkomandi stofnunar og skattgreiðendur. Engin merki eru um að aðrir geti náð hagræðingu sem borgin getur ekki, án þess að það komi einhvers staðar niður. Ef meirihlutinn treystir sér ekki til að reka stofnanir á sem hagkvæmastan hátt með góðu þjónustustigi og virðingu fyrir starfsfólki ber hann að afsala sér völdum," að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka