Rannsóknin á vitorði fjölda manna

Ólafur Þór Hauksson.
Ólafur Þór Hauksson. mbl.is/Golli

Embætti sérstaks saksóknara segir, að ekkert bendi til þess að starfsmenn embættisins hafi komið á framfæri upplýsingum, hvorki um  mál Baldurs Guðlaugssonar né nokkurt annað sem þar er til meðferðar.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Ólafi Þór Haukssyni, sérstökum saksóknara, vegna opins bréfs Karls Axelssonar, lögmanns Baldurs, í Morgunblaðinu í dag. Segir m.a. í yfirlýsingunni, að tugur manna hafi verið yfirheyrður vegna rannsóknar máls Baldurs og að krafa um kyrrsetningu eigna hans hafi verið til meðferðar hjá sýslumanni. Umfjöllun fjölmiðla um kyrrsetninguna hafi byrjað að því ferli loknu.

Yfirlýsing Ólafs er eftirfarandi:

Morgunblaðið birti í dag, þriðjudaginn 24. nóvember, opið bréf sem Karl Axelsson lögmaður ritar sérstökum saksóknara. Karl er verjandi Baldurs Guðlaugssonar og gætir hagsmuna hans við rannsókn embættis sérstaks saksóknara. Í bréfinu er embættið sakað um alvarlegan trúnaðarbrest sem nauðsynlegt er að svara. 

Karl segir m.a. í bréfi sínu  "...mál Baldurs hefur fyrir tilverknað einhverra sem til þess þekkja, sýnilega bæði frá embætti þínu og Fjármálaeftirliti, orðið fjölmiðlamál. Sá ítrekaði leki hefur svo alltaf átt sér stað á þeim tímapunktum þegar það hentaði ímyndaherferð viðkomandi embætta best en Baldri verst."

Það er ekkert sem bendir til þess að starfsmenn embættis sérstaks saksóknara hafi komið á framfæri upplýsingum, hvorki um þetta mál né nokkurt annað sem er til meðferðar hjá embættinu.

Fjármálaeftirlitið tók þetta tiltekna mál til rannsóknar 11. nóvember 2008. Því var vísað til embættis sérstaks saksóknara 9. júlí síðastliðinn. Um tugur manna hefur verið yfirheyrður í tengslum við rannsókn málsins. Óskað var eftir að eignir yrðu kyrrsettar í tengslum við rannsókn málsins með beiðni til sýslumanns 11. nóvember 2009 og kyrrsetningarmálinu lauk 13. nóvember. Þá var kyrrsetningin tilkynnt í samræmi við lög um kyrrsetningu og lögbann. Umfjöllun fjölmiðla um kyrrsetningu eignanna hófst að þessu ferli loknu. Rannsókn málsins var því orðin á vitorði fjölda manna utan embættis sérstaks saksóknara og því hæpið að fullyrða að um sé að ræða leka frá embættinu.

Lögmæti rannsóknarinnar er unnt að bera undir dómstóla sem taka afstöðu til  réttmæti hennar. Það verður ekki gert í fjölmiðlum. Vegna rannsóknarhagsmuna tjáir embættið sig ekki frekar um málið.

Ólafur Þór Hauksson,
sérstakur saksóknari

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert