Ekki verður af stofnun Framtakssjóðs Íslands í dag eins og til stóð. Forsvarsmenn lífeyrissjóðanna hafa ákveðið að fresta stofnfundinum um tvær vikur eða til 8. desember.
Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða, segir að í ljós hafi komið að meiri vinna þurfi að fara fram í baklandi lífeyrissjóðanna áður en hægt er að halda stofnfundinn. „Lífeyrissjóðirnir eru félagslegar stofnanir og því tekur tíma að ná þessu saman. Við ákváðum því síðdegis í gær að skynsamlegt væri að fresta fundinum um tvær vikur,“ segir hann.
Hrafn er þess fullviss að sjóðurinn verði stofnaður. Hlutverk sjóðsins verður að taka þátt í endurreisn íslensks atvinnulífs, einkum með fjárestingum í íslenskum fyrirtækjum, sem lent hafa í fjárhagserfiðleikum en eiga sér vænlegan rekstrargrundvöll.
Þetta er í annað sinn sem stofnfundinum er frestað en stefnt var að því í sumar að hann yrði haldinn í fyrri hluta októbermánaðar ef hljómgrunnur væri fyrir hugmyndinni innan sjóðanna. Gert er ráð fyrir að hver og einn lífeyrissjóður skuldbindi sig í upphafi til þátttöku í sjóðnum með því að ábyrgjast tiltekið framlag.