Á aðalfundi Samfylkingarinnar á Seltjarnarnesi, sem haldinn var í gærkvöldi, var samþykkt að flokkurinn bjóði fram í eigin nafni á Seltjarnarnesi í komandi sveitarstjórnarkosningum þann 29. maí 2010.
Jón Magnús Kristjánsson læknir var kosinn nýr formaður Samfylkingarfélagsins á aðalfundinum og var honum og öðrum í stjórn félagsins falið að hefja undirbúning framboðs þessa fyrsta Samfylkingarlista á Seltjarnarnesi. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.
Í samtali við mbl.is segir Jón Magnús, hinn nýkjörni formaður, að tvennt orsaki það helst að Samfylkingin býður nú fram undir eigin nafni. Í fyrsta lagi vilji Samfylkingarfólk skerpa á andstöðunni við meirihluta Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. „Samfylkingin telur sig þar hafa eitthvað mikilvægt fram að færa,” segir hann.
„Hins vegar að sem stærsti flokkur landsins þykir eðlilegt að Samfylkingin bjóði fram á sem flestum stöðum undir eigin nafni. Við teljum að þetta ætti að vera hluti af þeirri breytingu,” bætir Jón Magnús við.
Hann segir að öllum þætti einkennilegt ef Sjálfstæðisflokkurinn byði fram með öðrum, en hingað til hafi þótt sjálfsagt að Samfylkingin gerði það. „Okkur þótti rétti tíminn vera kominn til að breyta þessu,” segir hann.