Síminn hefur sett upp átta háhraðanetsstöðvar á Ströndum. Einungis ein þeirra hefur valdið vandræðum, en það er stöðin í Trékyllisvík, að sögn Margrétar Stefánsdóttur, forstöðumanns samskiptasviðs Símans. Unnið er að stækkun stöðvarinnar með birgja og verður málið leyst á næstu dögum.
Margrét segir að sala í kringum Trékyllisvík hafi verið vonum framar og að stöðin anni ekki álagi á álagstímum. „Síminn hefur sett upp á árinu 50 stöðvar í verkefninu og er þetta fyrsta stöðin sem við lendum í svona aðstæðum sökum álags,“ segir í svari Margrétar.
Í verkefninu á Ströndum eru bæir sem þarfnast sérstakra lausna svo hægt sé að tengja þá t.d. eins og Djúpavík. Margrét segir að þeir sem svo hagar til um séu tengdir síðastir á hverju svæði fyrir sig. „Síminn vinnur í lausnum fyrir þau svæði,“ segir í svari Símans.