Ekki eru forsendur á þessum tímapunkti forsendur fyrir sameiningu sveitarfélaga á Snæfellsnesi, að mati bæjarstjórnar Snæfellsbæjar. Slíkt myndi aðeins auka á þá óvissu sem fyrir er.
Þetta segja Snæfellsbæingar, sem fengu erindi frá bæjarstjórn Grundarfjarðar þar sem áhugi fyrir sameiningu var kannaður.
Bæjarstjórnin í Snæfellsbæ segir að núverandi kjörtímabil sitt sé nú að renna út og það hljóti því að vera nýrrar bæjarstjórnar að meta hvort stefna skuli að sameiningu sveitarfélaga. Rétt sé þó að árétta að samstarf sveitarfélaga á Snæfellsnesi sé gott og náið og hafi samtakamáttur þeirra í mörgum málum skilað miklu Sé spurning hvort ekki sé rétt að skoða enn frekara samstarf. Komi til frekari sameiningar sveitarfélaga á Vesturlandi á næstu árum, annað hvort með frjálsum kosningum eða tilskipun frá Alþingi, þá telur bæjarstjórn Snæfellsbæjar eina raunhæfa kostinn að Nesið verði eitt sveitarfélag.