Vilja skýrslu um afskriftir og endurskipulagningu

Fulltrúar stjórnandstöðunnar í viðskiptanefnd Alþingis hafa farið fram á að nefndin skili skýrslu til Alþingis um samræmingu reglna um afskriftir og endurskipulagningu fyrirtækja í fjárhagsvanda. Gera þau ráð fyrir að skýrslan geti falið í sér tillögu til þingsályktunar.

Þau Guðlaugur Þór Þórðarson, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður Elín Árnadóttir og Margrét Tryggvadóttir sendu  Lilju Mósesdóttur, formanni viðskiptanefndar, bréf í dag þar sem þessi ósk var lögð fram.

Í bréfinu segja þingmennirnir, að fulltrúar Íslandsbanka, Kaupþings, nú Arion banka, og Landsbanka hafi fyrr í þessum mánuði komið á fund viðskiptanefndar til að gera grein fyrir þeim reglum sem þar gilda um fjárhagslega endurskipulagningu  fyrirtækja. Fram hafi komið, að endurskipulagning viðskiptalífsins sé fyrst nú að hefjast.

„Undirritaðir nefndarmenn lýsa miklum áhyggjum af því hvernig staðið er að málum m.a. vegna þess að reglur bankanna um þetta efni eru ekki samræmdar og eftirlit virðist ekki tryggt," segir í bréfinu.

Í tilkynningu segja þingmennirnir brýnt að leggja áherslu á eftirfarandi atriði við athugun nefndarinnar:

  1. Hvernig eftirliti með verklagi og framkvæmd reglna um afskriftir og endurskipulagningu í þágu fyrirtækja skuli háttað.
  2. Að eftirlit verði tryggt og kveðið á um hvernig því skuli háttað, hver sjái um framkvæmd þess og beri ábyrgð henni.
  3. Að mælt skuli fyrir um hvernig samkeppnissjónarmið verði tryggð þegar hagsmunir fjármálastofnunar kunna að stangast á við hagsmuni samfélagsins.
  4. Hvernig aðkoma fyrri eigenda og starfsmanna má vera að söluferli fyrirtækja.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert