Áfengisgjaldið hækkar um 42% á einu ári

Frumvarp vegna breytinga á óbeinum sköttum, það er álögum á vöru og þjónustu, var lagt fram á Alþingi í gær. Samtals er gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs aukist á árinu 2010 um 13,9 milljarða en um 14,7 milljarða  á ársgrundvelli. Eru þetta um 2,4 milljörðum kr. lægri tekjur en gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga af þessum tekjustofnum.

Lagt er til að gjöld á áfengi og tóbaki hækki um 10%, sem talið er munu skila um milljarði í viðbótartekjur í ríkissjóð. Verði það að veruleika hafa gjöld á áfengi hækkað um 42% á tólf mánuðum.

Gera má ráð fyrir að rekstur bifreiða verði dýrari hljóti frumvarpið samþykki, en það felur m.a. í sér 10% hækkun á bifreiðagjaldi frá næstu áramótum, sem er ætlað að skila ríkissjóði árlega 500 milljóna viðbótartekjum. Þá er lagt til að almennt bensíngjald hækki um 2,50 kr. á hvern lítra en olíugjald um 1,65 kr. á lítra. Einnig segir að í undirbúningi sé frumvarp um kolefnisgjald, sem ætlað er að skila ríkinu 900 milljónum.

Til viðbótar er lagt til að fjölmörg skráningar- og leyfisgjöld hækki, að meðaltali um 50%. Mest hækka dómsmálagjöld, sem er bæði ætlað að mæta auknum rekstrarkostnaði dómstóla og draga úr fjölda smærri mála sem berast dómskerfinu.

Eins og komið hefur fram er lagt til þriggja þrepa virðisaukaskattkerfi. Frá 1. mars á næsta ári verður samkvæmt frumvarpinu bætt við nýju 14% þrepi, og falla í þann flokk sykurvörur, óáfengar drykkjarvörur og sala veitinga- og kaffihúsa, sem allt bar áður 7% skatt. Þá verður almennur virðisaukaskattur hækkaður úr 24,5 í 25%, en gert er ráð fyrir að sú breyting taki gildi 1. janúar.

Reiknað er með að breytingar á vaskinum skili 6 milljarða króna tekjuauka ári og valdi 0,6% hækkun vísitölu neysluverðs.

Loks er lagt til að einstaklingum verði heimilað að leysa út séreignasparnað að upphæð 1,5 milljónir fyrir staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars, til viðbótar þeirri milljón sem var heimiluð fyrr á árinu. Talið er að breytingin valdi mikilli aukningu í útgreiðslu séreignasparnaðar, sem skili ríkissjóði 5 milljarða tekjuauka en sveitarfélögum 2,6 milljörðum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka