Lilja Mósesdóttir, formaður viðskiptanefndar, sagði á Alþingi í dag að bankarnir fari ekki eftir samræmdum reglum og lögum þegar kemur að endurskipulagningu fyrirtækja. Hún hefur farið fram á að viðskiptaráðherra gefi munnlega skýrslu um málið á fundi nefndarinnar á morgun.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði út í málið og gagnrýndi að ekki væru samræmdar reglur hjá bönkunum. Hann sagði ekkert traust á bönkunum og lítill árangur næðist á meðan svo væri. Ennfremur hvatti hann viðskiptanefnd til að útbúa skýrslu um málið.
Lilja sagði nefnd sína hafa reynt að sinna eftirlitshlutverki sínu og m.a. kallað til sín aðila úr bankakerfinu og eftirlitsstofnunum. Hún sagði upplýsingar hafa komið fram sem bendi til þess að ekki sé farið að lögum og reglum.
Lilja sagðist því hafa boðað viðskiptaráðherra á fund viðskiptanefndar á morgun. Þar verður spurt hvernig tryggt sé að verklagsreglur bankanna séu í samræmi við lög, hvort eftirlit með framkvæmd verklagsreglur sé virkt og hvort ekki sé gætt jafnræði viðskiptavina mismunandi banka.
Lilja sagði jafnframt brýnt að setja leikreglur um endurskipulagningu fyrirtækja.