Brown álítur Icesave bindandi

Jóhanna Sigurðardóttir.
Jóhanna Sigurðardóttir. Ómar Óskarsson

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, svaraði bréfi Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra frá 28. ágúst þann 13. nóvember síðastliðinn. Í svarbréfi sem hann sendi þá þakkar hann Jóhönnu fyrir bréfið og segir að það hafi vakið hjá honum hugsanir og hann hafi íhugað það náið síðan þá.

Hann segist jafnframt telja þróun málsins síðan í sumar hafa verið mjög góða. Frumvarpið um Icesave-málið sem nú sé verið að ræða á Alþingi, þ.e. seinna frumvarpið um það mál, muni tryggja að lánasamningarnir vegna  málsins verði lögfræðilega skotheldir. Það sé mikilvægt skref fyrir alla aðila. Hann kveðst fagna því að ríkisstjórn Jóhönnu vilji tryggja að skuldbinding íslenska innistæðutryggingasjóðsins sé bindandi.

Hann kveðst jafnframt vona að málið geti nú leyst fljótlega svo hægt sé að líta fram á veginn.

Jóhanna Sigurðardóttir sendi honum annað svarbréf fjórum dögum síðar, þann 17. nóvember. Þar segir hún að hún verði að bregðast við áherslu Browns á það að ábyrgð íslenska ríkisins sé bindandi.  Hún nefnir fyrirvara Alþingis sem gerðir voru fyrr í haust.  Eftir að þeir hafi verið útlistaðir hafi þó eitt mál staðið sérstaklega út af. Það hafi verið viðurkenningin á þeirri staðreynd, að íslenska ríkið sé að ábyrgjast skuldbindingar, þó svo að því beri ekki ófrávíkjanleg lagaleg skylda til þess.

Í lok bréfs síns segir Jóhanna að ef staða Íslands í málinu myndi skána á einhverjum tímapunkti í framtíðinni, vegna úrskurðar þar til bærs aðila, verði búist við því að Bretar og Hollendingar taki málið þá upp í anda sanngirni og góðvilja.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka