Flugmenn Landhelgisgæslunnar eru einu ríkisstarfsmennirnir sem hafa hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra en falla þó ekki undir Kjararáð. Endurskoðun launa embættismanna er misjafnlega langt á veg komin. Þetta kom fram í svari Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, á Alþingi í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, spurði hvort komin væri til framkvæmda sú stefna ríkisstjórnarinnar að engin ríkislaun skuli vera hærri en laun forsætisráðherra.
Jóhanna vísaði í lagabreytingar sem tóku gildi í ágúst hvað varðar Kjararáð og sagði endurskoðun standa yfir. Hvað varðar endurskoðun launa þeirra ríkisstarfsmanna sem ekki falla undir kjararáð benti Jóhanna á að þeir eigi rétt á launum samkvæmt kjarasamningum. Umsamin laun í dagvinnu eru þó aðeins í einu tilviki hærri en hjá forsætisráðherra, það er hjá flugmönnum Landhelgisgæslu Íslands.