Forseti synji Icesave

Frá mótmælafundi Indefence-samtakanna á Austurvelli í fyrrasumar.
Frá mótmælafundi Indefence-samtakanna á Austurvelli í fyrrasumar. Ómar Óskarsson

InDefence-hópurinn er að hleypa af stokkunum undirskriftasöfnum þar sem skorað er á forseta Íslands að synja breyttum lögum um Icesave staðfestingar, verði þau samþykkt á Alþingi.

„Þegar forseti Íslands undirritaði Icesave lögin í haust lét hann fylgja yfirlýsingu þess efnis að hann hefði ekki undirritað lögin nema hinir veigamiklu fyrirvarar sem Alþingi gerði, fylgdu. Með breytingalögunum sem nú eru til umfjöllunar á þingi má segja að fyrirvararnir séu aftengdir og áhætta okkar og fólks framtíðarinnar aukin. Verður því að líta svo á að forsetinn geti ekki samþykkt málið eins og það lítur út í dag og því viljum við að hann synji afgreiðslu laganna og setji þau í dóm þjóðarinnar," sagði Jóhannes Þ. Skúlason talsmaður hópsins í samtali við Morgunblaðið í kvöld.

Liðsmenn InDefence segja að verði nýja Icesave-frumvarpið að lögum verði skuldbindingar íslenska ríkisins á ný ófyrirsjáanlegar, bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.

InDefence efndi til undirskriftasöfnunar í október á síðasta ári  vegna hryðjuverkalaganna sem Bretar beittu Íslendinga í kjölfar bankahrunsins. Með þá reynslu í huga hefur hópurinn ákveðið að efna til undirskriftasöfnunarinnar nú.

„Þetta er innlegg okkar til málefnalegrar umræða um Icesave, en að óbreyttu verða skuldbindingarnar í þeim lögum sem nú liggja fyrir Alþingi óbærilegar fyrir íslensku þjóðina," segir Jóhannes um undirskriftasöfnunina sem fer fram á vefsetri InDefence hópsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert