Niðurskurður yfirvofandi í skólum borgarinnar

Menntasviði Reykjavíkur er gert að skera niður útgjöld á næsta ári.  Í bókun meirihluta menntaráðs á fundi í vikunni segir, að lögð verði áhersla á að tryggja grunnþjónustu, verja störf fastráðinna starfsmanna og hækka ekki gjaldskrár.

Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara á fundinum lýstu lýsa þungum áhyggjum af því að með niðurskurði til grunnskóla borgarinnar verði hvorki hægt að standa við þessi markmið né grunnskólalög og aðalnámsskrá.

Fram kemur í bókun fulltrúa Samfylkingar í menntaráði,, að Menntasviði sé gert að hagræða um 1210 milljónir króna á árinu 2010 að teknu tilliti til hækkunar verðlags eða 6,51%. 

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks segir, að gripið verði til margvíslegra ráða til að tryggja gæði í skólastarfi þrátt fyrir óhjákvæmilega hagræðingu. Meðal annars með því að:
• notaðar verði lesskimanir, stærðfræðiskimanir og samræmd könnunarpróf.
• skólapúlsinn verður boðinn öllum skólum.
• símat og leiðsagnarmat verði innleitt í auknum mæli í skólum.
• sjálfsmat skóla og umbótaáætlanir á grundvelli þess eru mikilvægir þættir í að tryggja gæði skólastarfs.
• áfram verður unnið að þróun heildarmats á skólastarfi.
• aukin samvinna verður við foreldra um samþætt og fjölbreytt nám.
• áfram verður unnið að samþættingu skóla- og tómstundastarfs.
• leitað verður leiða við að hagræða í rekstri með breyttu vinnu fyrirkomulagi, almennu aðhaldi í rekstri, bættum innkaupum, orkusparnaði og fleiri þáttum.

Tekið er fram, að ekki sé gert ráð fyrir hagræðingu í sérkennslu og nýbúakennslu.

Fundargerð menntaráðs

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert