Svandís veruleikafirrt eða vanhæf

Skúli Thoroddsen.
Skúli Thoroddsen.

Skúli Thoroddsen, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sendir Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra tóninn í grein á vef sambandsins. Hann spyr hvor ráðherrann sé ekki með í ríkisstjórninni, sé utan hringsins. Hann er þar að skrifa um viðbrögð Svandísar við þeim ummælum Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, að framkvæmdir geti hafist við Suðvesturlínur Landsnets næsta sumar.

„Þá bregður svo við að umhverfisráðherra setur undir sig hornin og kannast ekki við að málið hafi verið rætt í ríkisstjórn. Hún, Svandís Svavarsdóttir, ætli sér allan þann tíma sem þarf til að skoða málið, það sé ekki forsætisráðherrans að tjá sig með þeim þætti sem raun varð á og Jóhanna er krafin reikningsskila orða sinna. Undir það taka svo atburðafjölmiðlarnir,” segir Skúli.

„Þarf leyfi umhverfisráðherra til að taka á vanda heimilanna og snúa við þeirri öfugþróun að hér gangi tíundi hver maður atvinnulaus, já reyndar sextándi hver félagi Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis suður með sjó?” spyr Skúli einnig.

Hann bætir við þvi við að Svandís virðist vera veruleikafirrt eða ekki starfi sínu vaxin nema hvort tveggja sé. Hún hafi enga samúð með því atvinnulausa fólki sem „mæli göturnar þessa dagana” og virðist því miður einnig hafa takmarkaðan skilning á því umhverfismeðvitaða samspili atvinnulífs og náttúru sem efst sé á baugi þeirra aðila sem leggi áherslu á sjálfbæra þróun og umhverfisvernd, eins og hann orðar það.

Grein Skúla í heild sinni

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka