Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur sent íslenskum stjórnvöldum rökstutt álit þess efnis, að ákvæði í lögum, sem sett voru árið 2007 um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, brjóti gegn samningnum um Evrópska efnahagssvæðið.
Að mati ESA setja lögin skorður við starfsemi erlendra fyrirtækja og brjóta þannig gegn ákvæðum um frjálst flæði vinnuafls.
Erlendum fyrirtækjum, sem ætla að veita þjónustu hér, er samkvæmt lögunum gert að senda Vinnumálastofnun ýmsar upplýsingar eigi síðar en átta virkum dögum áður en þjónustan er veitt í hvert skipti. Þau íslensku fyrirtæki, sem kaupa umrædda þjónustu, eiga samkvæmt lögunum að óska eftir skriflegri staðfestingu á að þessari upplýsingaskyldu hafi verið sinnt.
Þá gerir ESA einnig athugasemdir við ákvæði í lögunum um veikindarétt starfsmanna.
Markmið rökstutts álits er að gefa viðkomandi stjórnvöldum síðasta tækifærið til að bregðast við áður en ESA vísar málum til EFTA-dómstólsins. Hafa íslensk stjórnvöld 2 mánuði til að senda ESA athugasemdir.