Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk nú síðdegis tilkynningu um að maður með byssu hefði sést utan við Lyfju í Lágmúla í Reykjavík. Í ljós kom að um tólf ára gamlan dreng var að ræða, sem hafði verið að leika sér með leikfangabyssu.
Lögregla var með mikinn viðbúnað og lokaði meðal annars hluta götunnar. Liðsmenn sérsveitarinnar komu á staðinn vegna málsins. Segir sjónarvottur, sem mbl.is ræddi við, að sérsveitarmennirnir hafi umkringt drenginn og afvopnað.
Að sögn varðstjóra hjá lögreglunni var útkallið algerlega tilefnislaust og verða engin eftirmál af þessu. Leikfangið var ekki þess eðlis, t.d. svo nákvæm eftirmynd af raunverulegu vopni, að ekki mætti vera með það á götum úti.