Mat IFS Greiningar á gengisáhættu íslenska ríkisins tengdri Icesave-samningnum stendur óhaggað þrátt fyrir yfirlýsingar Efnahags- og viðskiptaráðuneytis. Kemur þetta fram í tilkynningu frá IFS.
Á föstudaginn í síðustu viku sendi IFS út greiningu á gengisáhættu tengda Icesave-samningnum, þar sem bent var á að gjaldeyrisáhætta væri fólgin í því að eignir þrotabús gamla Landsbankans eru að langmestu leyti í erlendri mynt, en kröfur á bankann séu umreiknaðar í íslenskar krónur. Ef íslenska krónan veikist, verði forgangskröfur verðminni í erlendri mynt. Veiking krónunnar geti því orsakað að eignir Gamla Landsbankans dugi fyrir forgangskröfum og aðrir kröfuhafar fái eitthvað í sinn hlut. Veiking krónunnar geti leitt til þess að skuldir vegna Icesave-samningsins hækki, en kröfur innlánstryggingarsjóðs verði óbreyttar.
Segir í tilkynningu IFS að fullyrðing ráðuneytisins, sem birtist á vef Ríkisútvarpsins hinn 21. nóvember, veki mikla furðu. Sagði þar að þrátt fyrir að innbyrðis hlutföll krafna í búið miðað við gengi mynta 22. apríl myndi það ekki hafa þau áhrif sem IFS varaði við.
Segjast starfsmenn IFS standa við framangreinda greiningu á gengisáhættunni.