Boðar afnám sjómannaafsláttar

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra lagði í kvöld fram frumvarp á Alþingi um tekjuöflun ríkisins. Um er að ræða svonefndan bandorm þar sem gerðar eru ýmsar breytingar á skattalögum og öðrum lögum. Samkvæmt frumvarpinu verður m.a. tekinn upp áður boðaður 3. þrepa tekjuskattur og einnig er boðað að sjómannaafsláttur verði lagður af í áföngum frá árinu 2011.

Sjómannaafsláttur er viðbótar presónuafsláttur í staðgreiðslukerfi tekjuskatts, sem sjómenn njóta. Afslátturinn er nú 987 krónur á hvern lögskráningardag. Samkvæmt frumvarpi fjármálaráðherra lækkar hann um 25% í 740 krónur árið 2011, aftur um 25%  í 493 krónur árið 2012, enn um 25% í 246 krónur árið 2013 og fellur brott árið 2014.

Í greinargerð með frumvarpinu segir, að fjöldi þeirra sem njóta sjómannaafsláttar sé nú rúmlega 6000 manns. Hafi þeim farið fækkandi frá því að núverandi kerfi var tekið upp en um 10.000 manns fengu sjómannaafslátt á fyrstu árum tíunda áratugarins.

Þá hafi laun þeirra sem fá sjómannaafslátt á síðustu árum hækkað verulega í samanburði við almenna þróun launa og  samkvæmt skattframtölum hækkuðu meðallaun þeirra sem fengu sjómannaafslátt um tæp 55% frá 2006 til 2008 en þeim sem afsláttinn fengu fækkaði um nærri 15%. Á sama tíma hækkuðu meðallaun framteljenda almennt um tæplega 30%. Hækkun þessi skýrist að hluta af gengisþróun sem hafði jákvæð áhrif á laun sjómanna og megi því reikna með að hún hafi haldið áfram fram á þetta ár og verði viðvarandi.

„Erfitt hefur reynst að ná samstöðu um afnám sjómannaafsláttar þótt flestir viðurkenni takmarkaðan tilverurétt hans. Ætla má að nú séu líkur á breiðri samstöðu um breytingar í þessu efni. Sjómenn eru meðal fámennra hópa sem fengið hafa verulegar kjarabætur í kreppunni sem er að ganga yfir og útgerðin er meðal þeirra atvinnugreina þar sem gengisfall krónunnar styrkir rekstrargrundvöllinn og fiskverð hefur verið hagstætt á mörkuðum. Almennur hljómgrunnur er fyrir því að skattkerfið stuðli að jöfnuði og þegar nauðsynlegt er að hækka skatttekjur er eðlilegt að byrja á að fella brott ívilnanir sem fela í sér mismunun," segir í frumvarpinu.

Samkvæmt mati fjármálaráðuneytisins má áætla, að frumvarpið í heild, verði það óbreytt að lögum, auk má því gera ráð fyrir að tekjur ríkissjóð verði 14,5 milljörðum kr. lægri en gert var ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga 2010. Að samanlögðu er gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs aukist um allt að 2,3 milljarða kr. í tengslum við þessar breytingar á skattkerfinu og breyttri samsetningu tekjuöflunar frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Fjármálaráðherra lagði einnig í kvöld fram frumvarp um auðlindaskatta. Þar er m.a. gert ráð fyrir sérstöku kolefnisgjaldi, sem verði verði lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensín, dísilolíu, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu, auk þess sem lagt er til að sérstakur skattur verði lagður á sölu á raforku og heitu vatni.

Tekjuöflunarfrumvarpið í heild

Frumvarp um auðlindaskatta

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert