BSRB krefst þess að sparnaðarkrafa sem hefur verið lögð á fæðingarorlofssjóð verði endurskoðuð. Stjórn sambandsins hefur ályktað um skerðingu greiðslna í fæðingarorlofi. Hún segir að íslenska fæðingarorlofskerfið hafi vakið mikla athygli hjá öðrum þjóðum og verið horft til þess sem fyrirmyndar.
„Ef sparnaðarkröfunni verður haldið til streitu er verið að hverfa áratugi aftur í tímann og vega að þeirri jafnréttishugsun sem í kerfinu felst.
Markmið fæðingarorlofslaganna er að tryggja að barn og foreldrar geti notið samvista. Einnig er lögunum ætlað að tryggja samræmingu fjölskyldu-- og atvinnulífs foreldra.
Skerðing á greiðslum í fæðingarorlofi dregur úr líkum þess að framangreind markmið laganna náist og er jafnframt varhugaverð afturför í jafnréttismálum,“ segir í ályktun stjórnar BSRB.