Farsímafyrirtækið IMC á Íslandi undirritaði í dag samstarfssamning við Símann um aðgang að dreifikerfi Símans. Er þetta í fyrsta sinn, sem Síminn gerir svo viðamikinn samning um aðgang að dreifikerfi sínu fyrir farsíma, við nýjan aðila á markaði.
Að sögn Jeffrey K. Stark, framkvæmdastjóra IMC á Íslandi, hefur fyrirtækið tekið ákvörðun um mikla uppbyggingu á Íslandi og að sama skapi umtalsverða fjárfestingu í tækjabúnaði og sérfræðiþekkingu.
Nýstofnað systurfyrirtæki ICM mun sjá um sölu og þjónustu við neytendur á Íslandi. Nýja félagið heitir Alterna Tel og í janúar hefst sala á farsímaþjónustu á öllu landinu undir nafninu Alterna.
IMC er hluti af WorldCell samsteypunni sem býður farsímaþjónustu í Evrópu, Afríku, Asíu og Mið-Austurlöndum. WorldCell er með höfuðstöðvar í Washinton DC í Bandaríkjunum og er móðurfélag bæði IMC og Alterna.
IMC á Íslandi var stofnað árið 2000 og hefur félagið fyrst og fremst einbeitt sér að viðskiptum erlendis. IMC er með um 430 reikisamninga í öllum byggðum heimsálfum. Þeir reikisamningar byggja á leyfisveitingu til félagsins frá árinu 2000, þegar Póst og fjarskiptastofnun á Íslandi veitti IMC farsímaleyfi. Með stofnun Alterna Tel verður breyting á áherslum IMC á Íslandi. Nú ætlar IMC að bjóða íslenskum neytendum þjónustu sína hér á landi undir merkjum Alterna Tel.
Verðskrá félagsins og tilboð verða kynnt í byrjun nýs árs. Hópur sérfræðinga frá IMC og Símanum vinnur nú að uppsetningu á tæknibúnaði og samtengingu við fjarskiptakerfi Símans. Símstöðvarkjarna IMC verður skipt út fyrir nýjan og mjög fullkominn og afkastamikinn búnað til að þjónusta viðskiptavini Alterna. Einnig verða settir upp fleiri sendar í eigu móðurfélagsins. Nú þegar eru uppi sendar á vegum félagsins á nokkrum þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni.