Eftir að þingheimur hafði ákveðið að ræða Icesave-málið í kvöld, um ellefuleytið fyrir hádegi, tóku þingmenn til við að ræða einmitt það mál í svokallaðri umræðu um störf þingsins.
Mest bar á gagnrýni Sjálfstæðismanna á forsætisráðherra fyrir að hafa leynt því í allnokkra daga að henni hefði borist svarbréf frá Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, þann 13. nóvember síðastliðinn. Sagði Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, það reginhneyksli að ráðherrann upplýsti þingið ekki um svarbréfið.
Þingmenn sögðu jafnframt að forsætisráðherrann breski virti Jóhönnu Sigurðardóttur og íslenska þjóð að vettugi og lítilsvirti, með því að svara seint og um síðir. Gunnar Bragi Sveinsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði jafnframt ómögulegt að afgreiða Icesave-frumvarpið frá Alþingi þar til búið væri að koma á hreint hvor túlkunin á Icesave-samningunum væri rétt, sú sem Brown héldi fram eða sú sem Jóhanna Sigurðardóttir héldi fram. Sagði hann að þau væru á hvort á sinni plánetunni þegar kæmi að túlkun á því hvort skuldbindingar Íslendinga séu bindandi eða skilyrtar.
Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, tók til svara fyrir Jóhönnu, sem ekki var í þingsalnum. Sagði hann að Jóhanna væri í bréfi sínu til Brown að verja hag íslensku þjóðarinnar, þrátt fyrir að henni hafi verið borið á brýn að vinna gegn þjóðarhag í málinu.