Óvirðing við þroskahefta

Atriði úr Fangavaktinni.
Atriði úr Fangavaktinni.

Þroskaþjálfafélag Íslands mótmælir og lýsir yfir vonbrigðum sínum yfir þeirri „neikvæðu ímynd og óvirðingu“ sem félagið telur að fólki með þroskahömlun hafi verið sýnd í 7. þætti Fangavaktarinnar. Þátturinn var á dagskrá  Stöðvar 2 sunnudaginn 8. nóvember s.l.

Salóme Þórisdóttir, formaður Þroskaþjálfafélagsins, sagði að í nefndum þætti hafi m.a. verið notað orðatiltæki sem sé að verða útbreitt -  „að vera kominn með kortér í Downs“. Einnig hafi verið atriði þar sem maður með þroskahömlum var látinn pissa á sig og vera með alls konar skrítin hljóð í veislu.

Hún sagði þetta hafa vakið félagsmenn til umhugsunar um hvaða rétt menn hafi, hvort sem þeir taka sér skáldaleyfi eða ekki, til að níðast á minnihlutahópum. Hún sagði þroskahamlaða vera mjög varnarlausa gagnvart viðhorfum eins og komu fram í þættinum.

Í yfirlýsingu stjórnar Þroskaþjálfafélagsins segir: „Að okkar mati er þetta atriði  niðurlægjandi og særandi fyrir fólk með þroskahömlun og aðstandendur þeirra. Það ýtir undir og viðheldur neikvæðri staðalímynd og umræðu í þjóðfélaginu sem þessi hópur hefur reynt að vinna gegn undanfarin ár.

Í sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland hefur undirritað, kemur skýrt fram að réttindi allra séu virt og allir njóti sömu virðingar. Þar er einnig fjallað um að bera skuli virðingu fyrir því að fólk er mismunandi, að berjast skuli gegn fordómum sem fatlað fólk verður fyrir, að breyta skuli viðhorfi barna og kenna þeim að bera virðingu fyrir réttindum fatlaðs fólks og ekki síst að hvetja skuli fjölmiðla til að fjalla um fatlað fólk með virðingu og á jákvæðan hátt.

Fangavaktin er vinsæl þáttaröð og teljum við framleiðendur bera mikla ábyrgð á þeirri neikvæðu ímynd sem birtist í umræddum þætti í garð einstaklinga með þroskahömlun.“

Ekki náðist í talsmenn Stöðvar 2.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert