Tillaga félagsmálaráðherra um skerðingu fæðingarorlofs hefur vakið afar hörð viðbrögð víða að úr samfélaginu og mikla gagnrýni frá bæði stéttafélögum og félagasamtökum.
Þannig hafa meðal annars Bandalag háskólamanna, Kvenréttindafélag Íslands, VR, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusamband Íslands, Félagsráðgjafafélag Íslands og Sjúkraliðafélag Íslands mótmælt skerðingu orlofsins.
Í ályktun VR segir m.a. að almenn lög um fæðingarorlof hafi verið stórt skref í jafnréttismálum á sínum tíma og skerðingin nú vegi freklega að réttindum fjölskyldna í landinu auk þess sem stórlega dragi úr möguleikum karla til töku fæðingarorlofs.
BHM varar eindregið við því að tímabundið erfiðleikaástand í efnahagsmálum sé látið koma svo harkalega niður á samfélagslegum framfaramálum sem kostaði hafi mikla baráttu og fórnir að ná fram. Ýmsar blikur séu á lofti hvað varðar jafna stöðu karla og kvenna og því fari betur á að markvisst sé unnið að því að uppfylla markmið laganna.
ASÍ bendir á að það séu gjarnan sömu einstaklingarnir og nú eiga að fá skerðingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði, sem orðið hafi fyrir alvarlegustu áföllunum vegna hækkunar á lánum og verðfalli á íbúðarhúsnæði, samhliða samdrætti á vinnumarkaði. Vegna lækkunar á viðmiðunartekjum muni auk þess fjölmargir lenda í tvöfaldri skerðingu. ASÍ mælist til þess að tillagan verði dregin til baka.
Í ályktun frá Félagsráðgjafafélagi Íslands segir að mikilvægt sé að tryggja barni tengsl og samveru við báða foreldra og gera báðum foreldrum mögulegt að samræma fjölskyldu – og atvinnulíf. Börn gæti ekki hagsmuna sinna sjálf og því sé ábyrgð stjórnvalda, fjölmiðla og samfélagsins alls mikil þegar kemur að málefnum sem þau varða.
Þá bendir stjórn Kvenréttindafélags Íslands á þá staðreynd að 90% íslenskra feðra hafi nýtt sér rétt til orlofstöku sem þótt hafi til fyrirmyndar. Fyrirsjáanlegt sé að enn ein lækkunin á fæðingarorlofsgreiðslum kippi stoðum undan fjárhagslegri afkomu nýbakaðra foreldra sem muni leiða til þess að færri feður taki fæðingarorlof. Auk þess kunni fæðingartíðni að lækka í kjölfarið.