Spáir óbreyttri jólaverslun

Jólaverslun í Smáralind.
Jólaverslun í Smáralind. mbl.is/Ómar

Rannsóknasetur verslunarinnar spáir því að jólaverslunin verði óbreytt frá síðasta ári að magni til. Vegna verðhækkana verði veltan þó 8%  meiri í krónum talið en í fyrra. Í fyrra minnkaði jólaverslunin um 18,3% frá árinu áður á föstu verðlagi.

Það var verulegur samdráttur því árlegur vöxtur jólaverslunarinnar hafði verið  að meðaltali 7,3% í fjögur ár þar á undan. Þetta kemur fram í árlegri spá Rannsóknaseturs verslunarinnar við Háskólanum á Bifröst um jólaverslunina.
 
Í skýrslu rannsóknasetursins kemur einnig fram að áætlað sé að velta í smásöluverslun sem rekja má til jólanna nemi um 13,4 milljörðum króna. Það jafngildir því að hver Íslendingur verji að jafnaði næstum 42.000 kr til jólainnkaupa. Í fyrra var þessi upphæð 38.600 kr.
 
Rannsóknasetrið gerir árlega könnun meðal almennings um hvernig hann hagar jólainnkaupunum. Niðurstöðurnar sýna að fólk byrjar nú fyrr á jólainnkaupunum en áður og dreifir þeim jafnvel á allt árið. Algengast er að hver fullorðinn verji um 25 – 75 þús. kr. til jólagjafakaupa. Mun færri en áður segjast kaupa jólagjafir fyrir meira en 100 þús. kr. Þá kemur í ljós að fleiri kaupa jólagjafir erlendis en í fyrra og fleiri versla á netinu fyrir þessi jól en áður hefur verið.
 
„Jólagjöfin í ár er „jákvæð upplifun“. Þetta  er niðurstaða dómnefndar sem hafði fengið hátt á annað hundrað tillögur að „jólagjöfinni í ár“. Þessi gjöf er talin falla vel að þeim tíðaranda sem nú ríkir. Í þessu vali felst að jólagjöfin veiti þeim sem fær gjöfina jákvæða upplifun og verðið rúmist innan fjárhags gefandans.

Í rökstuðningi dómnefndar segir m.a.: „Þannig  gjafir gefa þeir sem láta  ímyndunaraflið ráða för og velja eftir áhugasviði þess sem fær gjöfina. Dansnámskeið fyrir afa, flúðasigling fyrir frænku, miði á leiksýningu fyrir besta vininn eða iljanudd fyrir eiginmanninn. - Möguleikarnir eru óteljandi og  takmarkast bara af hugarfluginu.“ Jólagjöfin í ár getur þannig bæði verið vara eða þjónusta,“ segir í frétt frá Rannsóknasetri verslunarinnar.  
 
Einnig er í skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar birtar verklagsreglur viðskiptaráðuneytisins um skilarétt. Þar kemur m.a. fram að venja sé að skilaréttur á vörum sé 14 dagar.

Skýrsla Rannsóknaseturs verslunarinnar um jólaverslunina

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert