Húsnæðiskostnaður Reykjavíkurborgar hefur aukist um 94% frá árslokum 2005 til ársloka 2009 eða úr 4,6 milljörðum í 8,8 milljarða, langt umfram verðlagshækkanir á þessu kjörtímabili. Þetta kemur fram í bókun borgarfulltrúa Samfylkingarinnar í borgarráði í dag. Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingar, segir að um sé að ræða alvarleg mistök í stjórn borgarinnar sem Sjálfstæðisflokkurinn beri fulla ábyrgð á.
Samfylkingin vekur athygli á því að sífellt stærri hluti af því fjármagni sem ætlað er til þjónustu við íbúa fari nú í húsnæðiskostnað, hlutfall hans af heildarútgjöldum hafi hækkað úr 10% í ársbyrjun 2005 í 14% í árslok 2009. „Augljóst er jafnframt að húsnæðiskostnaður er verulega vanáætlaður í fjárhagsáætlun næsta árs,” segir í bókuninni. „Ekki er gert ráð fyrir verðlagsbreytingum, jafnvel þótt slíkar skuldbindingar séu sannarlega í einstökum samningum. Þá bendir flest til að kostnaður vegna rekstrar nýrra mannvirkja sé vanáætlaður en gert er ráð fyrir auknum útgjöldum upp á 238 milljónir króna sem er minna en síðustu ár, þrátt fyrir að framkvæmdastigið hafi verið sambærilegt.”
Við afgreiðslu síðustu fjárhagsáætlunar í borgarráði, fyrir um ári síðan, lagði Samfylkingin til að unnar yrðu tillögur að hagræðingu í húsnæðismálum þannig að 2-5% sparnaður næðist fram á þremur árum. Sérstaklega yrði hugað að bættri nýtingu húsnæðis og endurskoðun dýrra leigusamninga við einkaaðila sem taki til sín mikið fé, s.s. Höfðatorg, Íþrótta- og sýningahöll og Egilshöll í Grafarvogi.
„Ekkert hefur verið gert með tillöguna en ljóst er að hún hefði getað leitt til árlegs sparnaðar sem skiptir hundruð milljóna,” segir í bókun Samfylkingar í dag. „Gríðarleg hækkun húsnæðiskostnaðar vitnar hins vegar um taumlausa útþenslu og algeran skort á fyrirhyggju þegar kemur að steinsteypu á kjörtímabilinu. Enda kemur í framlögðu svari að verklagsreglum hefur ekki verið fylgt þannig að nýframkvæmdir hafa verið samþykktar án þess að nokkur grein hafi verið gerð fyrir rekstrarkostnaði sem af þeim myndi leiða. Þannig hefur húsnæðiskostnaður aukist í blindni hjá borginni eftir að Sjálfstæðismenn tóku við stjórn hennar.”