Umræða um umræðu

Tekist er á um hið langvinna Icesave-mál á Alþingi í dag og langt fram á kvöld, ef að líkum lætur. Fyrir hádegi var rætt um form en ekki efni, þar sem þingmönnum tókst að tala í tæpa klukkustund um það, hvort málið skyldi rætt fram á kvöld, eða ekki. Að því loknu var málið tekið fyrir í umræðum um störf þingsins.

29 stjórnarþingmenn greiddu því atkvæði að kvöldfundur yrði heimilaður, en 22 stjórnarandstöðuþingmenn greiddu atkvæði gegn því. Af viðstöddum greiddu tveir þingmenn ekki atkvæði.

Þrátt fyrir þetta hafa stjórnarandstöðuþingmenn fyllt mælendaskrána, eftir að hin eiginlega umræða hófst upp úr hádeginu, en stjórnarþingmenn ekki mikið látið í sér heyra og fæstir þeirra verið viðstaddir umræðuna.

Nokkrir þingmenn hafa í dag tjáð sig í fyrsta sinn um Icesave-máið úr ræðustól Alþingis, þar á meðal Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks. Hún minnti á að mikið upphlaup hefði orðið í samfélaginu fyrir skemmstu vegna fólks sem hefði tekið lán til stofnfjárkaupa í nafni barna sinna. Nú væri ríkisstjórnin hins vegar að skuldbinda íslensku þjóðina margar kynslóðir fram í tímann.

Lagði hún til að málið yrði látið niður falla og minnti á, að ef það færi ekki í gegnum þingið, gerðist nákvæmlega ekki neitt. Í landinu séu nefnilega í gildi ítarleg lög um ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingunum, frá því í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka