Í umræðum um sparnað síðastliðið vor benti Samband íslenskra sveitarfélaga á svonefnda Akureyrarleið. Hún felst í því að stytta vinnutíma fólks og í tilviki grunnskóla að fara úr 180 kennsludögum í 170 daga. Menntamálaráðherra féllst ekki á þessa tillögu vegna þess að fjöldi daga er bundinn í kjarasamningum kennara.
Halldór bendir á að á undanförnum árum hafi kostnaðurinn aukist mikið í opinbera kerfinu og því sé svigrúm til þess að draga úr honum. Reyndar telur hann að hið opinbera eigi að ganga mun lengra í því að ná niður kostnaði því það sé mun betri leið en að fara í mikla skattheimtu.
„Þetta er leið til þess að verja störf,“ segir hann og áréttar að hún sé mun betri en lokun skóla hefði í för með sér.
Halldór segist hafa viljað fara þá leið að semja við allar stéttir um að lækka laun tímabundið og verja þannig öll störf en ekki sé nægur skilningur fyrir þeirri leið.
Á fundi menntaráðs bókuðu fulltrúar Samfylkingarinnar að niðurskurðurinn þýddi fækkun starfa auk þess sem gengið yrði á grunnþjónustu. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks höfnuðu gagnrýni minnihlutans og bókuðu að aðgerðaráætlun borgarstjórnar yrði höfð að leiðarljósi, sem væri að tryggja grunnþjónustu, verja störf fastráðinna starfsmanna og hækka ekki gjaldskrár.
Kjartan Magnússon segir að ekki sé hægt að ræða opinberlega drög að starfs- og fjárhagsáætlun fyrr en við kynningu 1. desember. Stöðugt sé verið að vinna í fjárhagsáætluninni og verið sé að skoða margar leiðir til sparnaðar, meðal annars í samráði við menntamálaráðuneytið.