Íbúasamtök miðborgarinnar vilja að lokunartími allra veitingastaða í miðborginni verði til kl. 3.00 aðfaranótt laugardaga og sunnudaga. Næturklúbbar verði skilgreindir sem slíkir og þeim fundinn staður fjarri íbúðabyggð enda geti þeir verið opnir lengur. Þetta var samþykkt á aðalfundi samtakanna.
Segir í tilkynningu að samþykktin verði send borgarráði og stýrihópi sem skipaður var af ráðinu til að endurskoða staðsetningu áfengisveitingahúsa og skila áliti 1. október sl. Ekkert hefur heyrst frá hópnum enn.
Þá hefur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins verið sent afrit en hann hefur mælt með breytingum á opnunartímum veitingahúsanna vegna aukinna glæpa og harðari þegar líða tekur á nótt, að því er segir í tilkynningu.
„Lokunartími allra veitingastaða í miðborginni verði til kl. 3.00 aðfaranótt laugardaga og sunnudaga.Hálftíma taki að koma fólki út. Skilgreint verði síðan hvaða staðir séu næturklúbbar og þeim fundnir viðeigandi staðir fjarri íbúabyggð enda geti þeir verið opnir lengur.
Tryggt sé að hávaði frá veitingastöðum í miðborginni sé í lágmarki þannig að íbúar hafi svefnfrið t.d. skv. 4. gr. lögreglusamþykktar.
Við endurskoðun aðalskipulags sem nú stendur og þar með endurskoðun á Þróunaráætlun miðborgar frá árinu 2000 verði endurskoðaðar allar reglur um veitingastaði þannig að íbúabyggð og veitingahús geti farið saman án þess að gengið sé freklega á rétt íbúa eins og nú er."