Þykir ótækt að kyssa vöndinn

Þingfulltrúar FFSÍ hafa afþakkað boð sjávarútvegsráðherra.
Þingfulltrúar FFSÍ hafa afþakkað boð sjávarútvegsráðherra. Rax Ragnar Axelsson

Fulltrúar á þingi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) hafa afþakkað boð sjávarútvegsráðherra í tengslum við þingið. Þeir samþykktu ályktun í morgun vegna ákvörunar ríkisstjórnarinnar um afnáms sjómannaafsláttar.

Ályktun FFSÍ er svohljóðandi: „Þing FFSÍ  samþykkir  að  afþakka boð sjávarútvegsráðherra.“

Um er að ræða móttöku sem sjávarútvegsráðherra  hefur ávalt staðið að og áratuga hefð er fyrir í lok þinga sambandsins.  Þessi ályktun var samþykkt með öflugu lófataki.

Það er einróma skoðun þingfullrtúa að ótækt sé að kyssa vöndinn, sama dag og fram kemur frumvarp um afnám þessara sjálfsögðu 55 gömlu ára réttinda sjómannastéttarinnar. 

Árni Bjarnason, formaður FFSÍ, sagði flesta þingfulltrúana hafa áratuga reynslu á sjó. Þeir telji sjómannafrádráttinn vera hluta af sínum kjörum. Útvegsmenn og stjórnvöld hafi ákveðið þetta fyrirkomulag sín á milli fyrir 55 árum. 

Árni sagði fjölmörg rök hníga af því að veita sjómönnum skattaafslátt. Þeir hafi minni aðgang en aðrir að heilbrigðiskerfinu, vegakerfinu, menningarlífinu sem er kostað af skattfé. Þá séu ekki taldar með fjarvistir frá fjölskyldunni. 

„Ég vissi ekki af því fyrr en strákarnir mínir voru allt í einu orðnir höfðinu hærri en ég,“ sagði Árni. Hann sagði að sjómannaafsláttur í Noregi sé tífalt hærri en hér á landi. Það viðhorf sé ríkjandi hjá yfirvöldum á Norðurlöndum að starf sjómanna sé þess eðlis að þeim beri að umbuna fyrir það.

Þá benti Árni á að ýmsar aðrar starfsstéttir séu með hlunnindi eða sporslur sem heiti ekki jafn leiðinlegu nafni og „sjómannaafsláttur“. Árni nefndi þar til dæmis fjarvistarálag.

Fulltrúi á þingi FFSÍ lagði til í morgun að samþykkt yrði áskorun um að skipin sigldu í land til að mótmæla áformum um að leggja sjómannaafsláttinn niður. Tillagan hafði ekki verið rædd þegar rætt var við Árna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert