Með hagræðingaraðgerðum Landspítala hefur tekist að færa þjónustu frá dýrara formi til ódýrara forms. Þetta kemur fram í föstudagspistli Björns Zoëga forstjóra spítalans í dag. Í pistlinum kemur einnig fram að meðallaun allra stétta á spítalanum hafi lækkað, nema þeirra allralægst launuðu. Þannig hafi allir starfsmenn tekið á sig hluta af hagræðingu spítalans.
„Þessa vikuna höfum við verið að rýna nýjar tölur um rekstur spítalans fyrstu tíu mánuði ársins. Þar kemur margt forvitnilegt í ljós. Meðal annars sést að legudögum hefur fækkað aðeins, skurðaðgerðum hefur fækkað, komum á dag- og göngudeildir hefur fjölgað en fjöldi koma á bráðamóttökur stendur í stað milli ára.
Þrátt fyrir þetta hefur ekki myndast bið eftir þjónustu spítalans og eru nú biðlistar á LSH undantekning fremur en regla. Það að legudögum hefur fækkað og komum á dag- og göngudeildir hefur fjölgað sýnir að okkur hefur tekist að færa þjónustu frá dýrara formi (þjónusta allan sólarhringinn) til ódýrara forms. Þetta hefur líka leitt til minni yfirvinnu og þar með ákveðinnar launalækkunar.
Það hefur verið ákveðin tortryggni milli stétta á spítalanum vegna þessara launalækkana. Ég tel að sú tortryggni sé óþörf. Samkvæmt tölum spítalans hafa meðallaun allra stétta, nema þeirra allralægst launuðu, lækkað á þessu ári. Þannig hafa allir starfsmenn tekið á sig hluta af hagræðingu spítalans.
Sú hagræðing sem við teljum okkur hafa náð á þessu ári verður á bilinu 2.600-2.800 milljónir króna. Auðvitað eru þetta ekki allt laun en þau eru stór hluti af þessu. Þetta er frábær árangur og í raun er það einungis tvennt sem skyggir á þann árangur: Gengisþróun umfram forsendur fjárlaga (900 milljónir) og kostnaður vegna dráttarvaxta (220 milljónir). Við þurfum samt að gera enn betur á næsta ári. Meira um það eftir að fjárlög verða afgreidd," að því er segir í pistli Björns í dag.