Grunnskólinn ekki aftur til ríkisins

Katrín Jakobsdóttir
Katrín Jakobsdóttir Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, er ekki þeirrar skoðunar að rétt sé að færa grunnskólann aftur til ríkisins. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun. 

Ráðherra minnti á að flutningur grunnskólans frá ríkinu til sveitarfélaga var gríðarstór aðgerð á sínum tíma. Benti hún á að í nágrannalöndum okkar sé grunnskólinn yfirleitt á hendi sveitarfélaganna.

„Hins vegar þarf auðvitað að skoða í samskiptum ríkis og sveitarfélaga almennt hvernig þetta gengur,“ sagði Katrín og tók fram að fram þyrfti að fara mat á því hvernig sveitarfélögunum gangi að inna grunnskólaþjónustuna af hendi og hvernig ríkið geti komið til aðstoðar í þeim málum. 

Minnti hún á að rekstur grunnskóla nemi allt frá 50%-90% af rekstri sveitarfélaga. „Staða sveitarfélaganna er mjög mismunandi núna þegar kemur að niðurskurði. Hins vegar eru auðvitað lög um grunnskólana sem gera ráð fyrir því að þessa jafnræðis eigi að vera gætt, þ.e. ákveðinn tímafjöldi kenndur og ákveðinn dagafjöldi kenndur og aðalnámsskrá í gildi,“ sagði Katrín og tók fram að það væri hlutverk ríkisins að gæta að því að jafnræðis nemenda milli sveitarfélaga sé tryggð. 

Katrín sagðist þeirrar skoðunar að niðurskurður bítur meir á yngri skólastigum en eldri. „Það er minni aðlögunarhæfni á yngri skólastigum en eldri. Það er erfiðara að taka tímabundna skerðingu á þeim tíma,“ sagði Katrín. Tók hún fram að hættan væri alltaf sú, ef farið er út í skerðingar, að langur tími gæti tekið að endurheimta það sem skert væri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert