Fundu heitt vatn á Vatnsleysuströnd

Jakob Árnason við borinn í morgun.
Jakob Árnason við borinn í morgun. mynd/vf.is

Borframkvæmdir á vegum Jakobs Árnasonar, landeiganda á Auðnum á Vatnsleysuströnd, báru árangur í vikunni þegar borinn kom niður á heitt vatn. Nú streymir fimmtíu gráðu heitt vatn upp úr holunni og á eftir að hitna en reiknað er með að það fari í 80 gráður.

Fram kemur á fréttavef Víkurfrétta, að borunin hófst í byrjun september og var borað niður á 800 metra dýpi.  Um 20 sekúndulítrar af heitu vatni fást í holunni en það magn dugar til að hita upp 400–500 heimili.  Á 20 metra dýpi kom borinn niður á kalt vatn og myndi magnið nægja fyrir Grindavík.


Jarðborinn er í eigu Ræktunarsambands Flóamanna en Jakob stendur að þessum framkvæmdum á eigin kostnað. Vatnið hyggst hann nýta  fyrir Vatnsleysuströndina en þar eru 40 heimili sem nota rafmagn til upphitunar. Hann segir Hitaveitu Suðurnesja ekki hafa viljað leggja í kostnað við að leggja hitaveitu inn á ströndina og því hafi hann ákveðið að ráðast í þetta sjálfur. 

Þegar Víkurfréttir spurðu Jakob hvernig honum hafi dottið í hug að bora eftir heitu vatni á svæði þar sem enginn yfirborðshiti er sjáanlegur, var svarið stutt og laggot: „Ég var búinn að þefa þetta uppi.“

Víkurféttir.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka