Hugmynd um sjávarfallavirkjun í Breiðafirði

Teikning af þverbrú við mynni Þorskafjarðar. Á myndinni má sjá …
Teikning af þverbrú við mynni Þorskafjarðar. Á myndinni má sjá brú sem inniheldur hverfla sem framleiða rafmagn á útfalli úr fjörðunum.

Í undirbúningi er stofnun sprotafyrirtækis til að vinna að hugmyndum um sjávarfjallavirkjun í innfjörðum Breiðafjarðar. Að fyrirtækinu standa m.a. Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkubú Vestfjarða og Vegagerðin.

Í tilkynningu frá Nýsköpunarmiðstöð Íslands segir, að Bjarni M. Jónsson við Háskólasetur Vestfjarða á Ísafirði hafi undanfarin misseri unnið að rannsóknum og þróun á sviði virkjana sjávarfalla en leiðbeinandi verkefnisins sé Þorsteinn I. Sigfússon, forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Í meistaraverkefninu kannaði Bjarni meðal annars möguleika virkjana sjávarfalla í nokkrum innfjörðum Breiðafjarðar og gerði ýtarlega mælingu á magni og dýpt sjávar í þessum fjörðum með það í huga að meta aflið sem virkja mætti samhliða þverbrúun fjarðarins. Hugmyndin er að brúargerð og virkjun verði sameinuð í eina framkvæmd.

Afl sjávarfalla hefur verið reiknað fyrir nær alla innfirði og kom í ljós að hámarksafl í Dýrafirði yrði 10 MW, Mjóafirði 14 MW, Kolgrafarfirði 50MW og Gilsfirði 100 MW. Þverbrú í mynni Þorskafjarðar og aðliggjandi fjörðum gæfi hámarksafl 180 MW samkvæmt útreikningum Bjarna. Raunafl virkjunar á útfalli gæti orðið á bilinu 75-80 MW. Þarna væri um að ræða afl sem er lotubundið og útreiknanlegt og nákvæmt langt fram í tímann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert