Hugsanleg jarða- og skipasala veldur áhyggjum

Ríkisstjórnin óttast að skip verði seld úr landi.
Ríkisstjórnin óttast að skip verði seld úr landi.

 

Ríkisstjórnin segist hafa af því áhyggjur ef bankahrunið leiði til að margar bújarðir fari úr landbúnaðarnotum og aflahlutdeildir færist milli byggðarlaga vegna þrotameðferðar eða annars þvingaðs eignauppgjörs.

Jafnframt liggi fyrir að sala sérhæfðra atvinnutækja úr landi líkt og fiskiskipa geti haft ófyrirsjáanleg áhrif á stöðu vissra byggða og atvinnugreina. Einkum sé um að ræða rækjutogara en fjármögnunarmöguleikar innlendra aðila eru ennþá mjög takmarkaðir.

Þetta kemur fram í minnisblaði, sem Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði fram í ríkisstjórn í september. Jón hefur nú skipað vinnuhóp sem á að fara yfir stöðu þessara mála og kortleggja hana. Það felst í því að fá yfirlit yfir jarðir og útgerðir sem líklegt er að lendi undir yfirráðum banka og fjármálastofnana. Með sama hætti verði farið yfir stöðu framleiðslutækja.

Í starfshópnum eru Ingimar Jóhannsson, skrifstofustjóri, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, sem er formaður, Björn Rúnar Guðmundsson, skrifstofustjóri, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Hjördís D. Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi ráðherra, fjármálaráðuneyti og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri, forsætisráðuneyti.

Heimasíða sjávar- og landbúnaðarráðuneytis

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert