Fréttaskýring: Kynjahalli í æðstu stjórn fyrirtækja

Aðeins 15% allra fyrirtækja á Íslandi höfðu á árinu 2009 bæði kynin í stjórnum sínum. Hjá 71% allra fyrirtækja á Íslandi sitja einungis karlmenn í stjórnum fyrirtækjanna og hjá 14% fyrirtækjanna einungis konur. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðbjargar Lindu Rafnsdóttur, prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands, í framsögu sem hún hélt á norrænni ráðstefnu um kyn og völd sem nýverið fór fram í Reykjavík.

Að sögn Guðbjargar birtist talsverður kynjahalli þegar kemur að æðstu stjórn efnahagslífsins. Sagði hún ljóst að opinber fyrirtæki hefði mörg hver jafnað kynjabilið meðal almennra stjórnarliða eins og jafnréttislögin kveða á um, en lítið sem ekkert hafi gerst umfram það. „Þótt kynjahlutfallið sé orðið fremur jafnt í stjórnum opinberra fyrirtækja, þá hefur hlutfall kvenna meðal stjórnarformanna og æðstu stjórnenda í þessum sömu fyrirtækjum lítið sem ekkert aukist á síðustu árum. Sömu sögu er að segja um stjórnun einkafyrirtækja,“ sagði Guðbjörg og tók fram að hugsanlega væri ekki hægt að laga þetta hlutfall nema með lögum eða kynjakvótum.

 Orkufyrirtækin karllæg

Í erindi Guðbjargar kom fram að árið 1999 var hlutfall kvenna meðal forstjóra í öllum fyrirtækjum á Íslandi 15% en áratug síðar var hlutfallið komið upp í 19%, sem er tilkomin vegna nýrra fyrirtækja. Konur voru 22% almennra stjórnarmanna árið 1999 en hafði fjölgað um 1% tíu árum síðar. Konur voru 22% stjórnarformanna bæði árin.

Sé aðeins horft til 120 stærstu fyrirtækja landsins má sjá að árið 2008 voru konur 8% forstjóra eða framkvæmdastjóra, 13% stjórnarliða og 11% stjórnarformanna. Ef litið er á kynjaskiptinguna í stjórnum fyrirtækja sem skráð voru í Kauphöllinni annars vegar árið 1999 og hins vegar 2007 kemur í ljós enn meiri kynjahalli, því konur voru aðeins 4% stjórnarliða í þessum fyrirtækjum fyrra árið en hafði fjölgað í 7% seinna árið. Árið 2000 var ein kona forstjóri fyrirtækis sem skráð var í Kauphöllinni, en engin árið 2007.

Sé litið til fyrirtækja sem ríkið átti a.m.k. helminginn í voru þau alls 27 talsins árið 2008. Kynjahlutfallið í stjórnum þessara fyrirtækja var nánast hnífjafnt. Á sama tíma var aðeins ein kona sem gegndi stjórnarformennsku í þessum fyrirtækjum. Guðbjörg gerði skort á konum í stjórnun orkufyrirtækja einnig að umtalsefni og benti á að engin kona var forstjóri eða gegndi stjórnarformennsku í þessum fyrirtækjum hvorki árið 2000 né 2008. Hlutfall kvenna í stjórnum orkufyrirtækja fór hins vegar úr því að vera 17% í 39%.

Sé horft til aðila vinnumarkaðarins má sjá að árið 2008 voru konur með 29% hlutdeild í framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins, voru 14% stjórnarmanna og 9% í fulltrúaráði samtakanna. Það sama ár voru konur 52% félagsmanna átta helstu samtaka stéttarfélaga á Íslandi, en þær voru aðeins 40% stjórnarmanna í stjórnum þessara félaga. Aðeins ein kona var formaður hjá samtökunum átta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert