Á síðasta ári sýndi Ríkisútvarpið 81.818 mínútur af íslensku dagskrárefni. Það er ellefu þúsund mínútum meira en árið 2007. Á Stöð 2 hefur þróunin í mínútum talið verið lítil á árunum 2005–2009 og hefur hún ráðist mest af framboði á dagbundnum fréttatengdum útsendingum.
Þetta kemur fram í svari menntamálaráðherra við spurningu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins.
Mikið hefur dregið úr fréttatengdu efni á Stöð 2 frá árinu 2005. Það ár var það 52 þúsund mínútur en á síðasta ári um 23 þúsund mínútur.
Upplýsingar sem Skjár einn sendi sýna að nokkuð hefur dregið úr framleiðslu á íslensku efni hjá sjónvarpsstöðinni frá árinu 2006. Miklar sveiflur eru á milli ára en hlutur íslensks efnis hefur aukist það sem af er þessu ári.
Árið 2006 nam íslenskt efni á Ská einum 321 klukkustund en var aðeins 88 klukkustundir á síðasta ári. Það sem af er þessu ári hafa verið sýndar 105 klukkustundir af íslensku efni.